Gunnar Malmquist á tvo syni sem fara á stórmót á árinu, þá Aron Einar Gunnarsson sem mun leiða íslenska karlalandsliðið í fótbolta á völlinn í Rússlandi í sumar og Arnór Gunnarsson sem stendur í ströngu á EM í handbolta í Króatíu um þessar mundir. Gunnar er staddur í Króatíu og ætlar sér að kíkja eitthvað á HM í sumar.
Gunnar eða Gunni Mall eins og hann er kallaður hefur gaman að því fylgjast með strákunum á stórmótum en segir að því fylgi talsverður kostnaður. „Auðvitað kostar þetta sitt en það verður bara að hafa það,“ segir Gunnar í samtali við Nútímann.
Það er hægt að finna ágætis bjór á öllum þessum stöðum sem er mikill kostur.
Hann fór nokkra leiki á EM í Frakklandi og reiknar með að kíkja til Rússlands. „Ég reikna með að fara á eitthvað af þessum leikjum. Það er samt ekki hægt að vera í endalausu fríi. Konan fer samt örugglega bísperrt á alla þessa leiki,“ segir Gunnar.
Hann segir erfitt að gera upp á milli hvort sé skemmtilegra að fylgjast með strákunum sínum á stórmótum í handbolta eða fótbolta. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer á svona handboltamót og þetta er alveg geggjað. Kosturinn við þessi handboltamót er að leikirnir eru allir spilaðir í sömu borg og maður þarf ekki að þvælast mikið um,“ segir Gunni.
Hann var í óða önn að græja sig fyrir leikinn gegn Serbum í kvöld þegar Nútíminn náði tali af honum. „Við vinnum þennan leik með þremur mörkum, það er 100 prósent.“
Leikur Serbíu og Ísland hefst klukkan 17:15 í dag.