Stefnumótasíðan Ashley Madison komst í heimsfréttirnar árið 2015 þegar upplýsingar um notendur síðunnar láku á netið. Málið þótti einstaklega vandræðalegt enda sérhæfir vefurinn sig í að leiða saman fólk sem vill halda framhjá mökum sínum.
Erlendis þótti vandræðalegast að flestir kvenkynsnotendur síðunnar voru bottar; gervimanneskjur hannaðar til að svindla á karlkyns notendur síðunnar. Á Íslandi þótti málið hins vegar vandræðalegast fyrir Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem var skráður undir hinu eftirminnilega notendanafni: Icehot1.
Ashley Madison hefur síðustu misseri unnið að því að vinna traust notenda sinna aftur. Kaldhæðnislegt í ljósi þess að megintilgangur vefsins er að misnota traust milli fólks. Þá er nýrri auglýsingu ætlað að laða konur að vefnum en hvort það takist verður tíminn að leiða í ljós.
Horfðu á auglýsinguna hér fyrir ofan.