Upplýsingar um laun og kostnaðargreiðslur þingmanna hafa verið birtar á vef Alþingis. Núna er aðeins hægt að sjá laun og fastar mánaðarlegar greiðslur en á vefnum verður einnig hægt að skoða endurgreiddan útlagðan kostnað en undir það fellur til dæmis ferðakostnaður.
„Nöfn þingmanna eru birt í stafrófsröð. Þegar smellt er á nafn þingmanns birtast upplýsingar um hann. Þá er hægt að smella á einstaka kostnaðarþætti, t.d. húsnæðis- og dvalarkostnað, og fá upplýsingar hvað felst í þeim kostnaðargreiðslum,“ segir í upplýsingum um vefinn.
Upplýsingarnar eru birtar í kjölfarið á því að það kom í ljós að þingmenn fá milljónir endurgreiddar í akstursgreiðslur, umfram útlagðan kostnað. Í fyrstu stóð til að birta aðeins upplýsingar frá 1. janúar 2018 en í gær kom fram að upplýsingar allt að tíu ár aftur í tímann verði birtar.
Á vefnum kemur fram að vefsíðan sé ekki að fullu frágengin og sem stendur tekur hún eingöngu til fastra launagreiðslna og fastra kostnaðargreiðslna.
„Gert er ráð fyrir að í næstu viku á bilinu 7.-10. mars verði hægt að opna á 2. áfanga vefsíðunnar en þá verða birtar upplýsingar um greiðslur sem eru breytilegar, þ.m.t. endurgreiðslur fyrir útlagðan ferðakostnað.
Bæði 1. og 2. áfangi í vinnslu vefsíðunnar miðast við birtingu upplýsinga frá 1. janúar 2018. Jafnframt er að hefjast undirbúningur að því að birta gögn frá liðnum tíma og miðast sá undirbúningur við að farið verði um áratug aftur í tímann.“