Leikkonan Steiney Skúladóttir birti í gær Twitter-færslu þar sem hún leitar svara við því hvers vegna sumir karlmenn stundi það að senda óumbeðnar typpamyndir í gegnum samfélagsmiðla. Steiney virðist ekki vera sú eina sem fær myndsendingar sem þessar en dæmi er um að íslenskar konur fái sendar óumbeðnar typpamyndir daglega.
Af hverju að senda dick pick á einhvern sem þú þekkir ekki? Spyr einlæglega því ég SKIL ÞETTA EKKI!
— Steiney Skúladóttir (@steiney_skula) March 6, 2018
Steiney birti færsluna í von um að fá svör við ráðgátunni um það hvers vegna sumir menn stundi þetta. „Ég hef fengið svona myndir nokkrum sinnum og það er ógeðslega óþægilegt. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna menn gera þetta og þess vegna birti ég þetta tíst,“ segir Steiney í samtali við Nútímann.
Hún íhugaði eitt sinn að leita réttar síns eftir að hafa fengið fjölmargar typpamyndir frá sama aðila. „Það var strákur sem var alltaf að senda mér aftur og aftur typpamyndir á Snapchat. Ég ætlaði að kæra og var komin með lögfræðing í málið. Lögfræðingurinn var svo kosinn á þing þannig ég endaði bara á að blokka strákinn,“ segir hún.
Donna Cruz, fyrrverandi meðlimur Áttunnar, er með marga fylgjendur á samfélagsmiðlum og verður mjög reglulega fyrir því að fá sendar óumbeðnar typpamyndir. „Bara í síðustu viku fékk ég sendar sjö myndir sem ég man eftir,“ segir Donna í samtali við Nútímann.
Hún segist eiga erfitt með að skilja hvers vegna menn sendi svona myndir. „Ég veit það ekki, kannski leiðist þeim? Ég trúi að minnsta kosti ekki að þessi aðferð hafi nokkurn tíma virkað til að heilla stelpur. Hún virkar allavega ekki á mig,“ segir Donna.
Svona menn eru bara blokkaðir um leið.
Kynlífsbloggarinn Kara Kristel Ágústsdóttir hefur sömu sögu að segja. „Ég er að fá sendar að meðaltali eina mynd á dag. Suma daga enga en aðra daga fæ ég margar. Þetta virðist vera algengara um helgar,“ segir Kara í samtali við Nútímann.
Hún segist aldrei hafa skilið hvers vegna karlmenn geri þetta og er hætt að láta þetta hafa áhrif á sig. „Ég er löngu orðin ónæm fyrir þessu. Ég opna þetta bara, geri ekki neitt og held áfram með daginn,“ segir Kara.
Stelpurnar eru sammála um að þeir sem senda svona myndir séu á öllum aldri. Steiney þekkir dæmi um að drengir allt niður í 13 ára aldur hafi sent svona myndir. „Vinkona mín var í sakleysi sínu að opna Instastory request og þar blasti við myndband af strák að rúnka sér. Síðar kom svo í ljós að strákurinn var 13 ára þannig þarna var í raun búið að neyða hana til að horfa á barnaklám,“ segir Steiney.