Starfsfólk á skrifstofu Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík og í söngskólanum Domus Vox fá svo oft til sín ringlaða ferðamenn í leit að Reðasafninu og það hefur neyðst til að hengja upp sérstakt blað til áréttingar.
Á þetta benti Ásta Helgadóttir, fyrrverandi þingkona Pírata, á Twitter í gær en mynd hennar af umræddu blaði fór á mikið flug í gærkvöldi og endaði meðal annars á forsíðu Reddit, eins aðsóknarmesta vefs heims.
Hér má sjá umrætt tíst sem varpar ljós á þennan sprenghlægilega misskilning
First world problem in Iceland. pic.twitter.com/LYLON77nuU
— Ásta Helgadóttir (@asta_fish) March 12, 2018
Á blaðinu má finna leiðarvísi að Reðasafninu en skrifstofa kvikmyndahátíðarinnar og söngskólans eru á Laugavegi 116, rétt eins og Reðasafnið sem er á jarðhæð. Safnið er vinsælt á meðal ferðamanna sem hafa augljóslega ruglast oft, fyrst fólk sá tilefni til að hengja upp umrætt blað.
Þegar þetta er skrifað hefur mynd Ástu verið endurtíst rúmlega 12 þúsund sinnum af fólki um allan heim og 41 þúsund manns í viðbót hafa líkað við myndina. Þá er myndin í öðru sæti á Reddit þessa stundina en vefurinn er á meðal þeirra aðsóknarmestu í heimi.