Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna, segir að húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslur sem hún þiggur mánaðarlega frá Alþingi dugi ekki fyrir afborgunum af láni af íbúð hennar í Reykjavík. Þetta kom fram í þættinum Þjóðbraut á Hringbraut í lok febrúar. Sjáðu brot úr þættinum hér fyrir ofan. Eyjan vakti athygli á viðtalinu.
Umræðan um starfskjör þingmanna hefur verið áberandi undanfarið og nýlega birti Alþingi upplýsingar um laun og greiðslur til þingmanna á vef sínum. Í þættinum Þjóðbraut sagðist Bjarkey hafa fjárfest í íbúð í Reykjavík árið 2013 og að greiðslur upp á 180 þúsund krónur á mánuði dugi ekki fyrir afborgunum af láninu.
„Ég fæ í kringum 180 þúsund á mánuði því ég held tvö heimili og það dugar ekki fyrir afborgunum af lánum af þeirri íbúð sem ég fjárfesti hér í 2013, sem var þó á þokkalegu góðu verði miðað við gengi dagsins í dag,“ sagði hún í þættinum og hélt áfram:
„Og nýju þingmennirnir í mínu kjördæmi sem voru kjörnir á þing í fyrra eru enn verr staddir, vegna þess að koma hér inn á leigumarkaðinn undir þessum kringumstæðum eða að reyna að fjárfesta sér, það kostar auðvitað eins og við þekkjum og húsnæðismarkaðsverðið hefur hækkað mikið, þannig að þeir eru enn verr settir en ég. Og eins og ég segi, við þekkjum það og þetta dugar ekki til.“
Bjarkey fær samtals 1.266.373 krónur á mánuði í laun. Inni í því eru 134.041 króna húsnæðis- og dvalarkostnaður og 53.616 krónur í álag. Húsnæðis- og dvalarkostnaður er hugsaður fyrir þingmenn sem búa á landsbyggðinni og halda heimili í Reykjavík.
Horfðu á allan þáttinn á vef Hringbrautar.