Fjallað er um stóra HÚH!-málið á vef breska ríkisútvarpsins BBC í dag. Eins og kom fram á Nútímanum fyrir helgi var „HÚH!“ skráð sem orðmerki í september árið 2016. Skráningin gildir í áratug og á meðan hefur Gunnar Þór Andrésson, skráður eigandi orðmerkisins, einkaleyfi á að merkja fatnað og drykki með þessu orði.
Sjá einnig: Formaður Tólfunnar segir engan geta tekið HÚ-ið“ frá þjóðinni
Hugleikur Dagsson vakti athygli á málinu í færslu á Facebook-síðu sinni. Þar sagði Hugleikur að eigandi orðmerkisins „Húh!“ hafi haft samband við sig vegna bols sem hann teiknaði árið 2016 og kallast „HÚ!“ og sýndi mann taka víkingaklappið. „[Hann] tjáði okkur að hann ætti orðið „HÚH!“ og aðeins hann mætti prenta það á boli. Þetta kom okkur á óvart,“ segir Hugleikur.
Gunnar Þór Andrésson sagðist á vef RÚV fyrir helgi sjá sóknarfæri í heimsmeistaramótinu í sumar. Í frétt RÚV kom fram að hann væri kominn í viðræður við prjónastofu um framleiðslu á fatnaði merktum „HÚH!“
Gunnar segist hafa óskað eftir að Hugleikur myndi hætta að framleiða og selja bolina eða að þeir kæmust að samkomulagi um að deila hagnaðinum. „Ég var ekkert að banna honum að selja bolina, ég vildi bara að við kæmumst að samkomulagi ef hann hefði einhverjar hugmyndir um fasta tölu eða prósentu. Þau svöruðu mér ekkert um það hvað þau væru að hugsa,“ sagði Gunnar á vef RÚV.