Strákarnir í hljómsveitinni í The Rolling Stones ætla að drekka íslenskt vatn á tónleikaferðalagi sínu um Evrópu í sumar. Sveitin hefur gert samkomulag við Icelandic Glacial um að sjá tónleikaferðalaginu fyrir íslensku vatni.
Í fréttatilkynningu vegna málsins kemur fram að hljómsveitinni hafi verið mikið í mun að draga úr kolefnisspori sínu en Icelandic Glacial vatnið er fyrsta tegund flöskuvatns í heiminum sem er vottað sem kolefnishlutlaust.
Jón Ólafsson, stofnandi Icelandic Glacial er mikill aðdáandi Rolling Stones en hann er gríðarlega ánægður með samkomulagið. „Við erum gríðarlega ánægð með þetta samstarf með hljómsveitinni og erum spennt fyrir því að hjálpa henni að gerast umhverfisvæn hljómsveit,“ segir hann.
Tónleikaferðalag sveitarinnar nefnist No Filter og hefst í Dublin í næstu viku.