Fyrir ákveðinn hóp fólks er Jordan Peterson réttur maður á réttum tíma. Hann er gáfaður, vel máli farinn sálfræðiprófessor sem virðist vera í einhvers konar krossferð gegn pólitískum rétttrúnaði. Fólk annað hvort hatar hann eða elskar. Aðdáendur hans virðast vera hálfgerður sértrúarsöfnuður á meðan þau sem þola hann ekki mega varla heyra á hann minnst án þess að blóð þeirra kraumi.
Jordan Peterson hefur sagt að karlar stýri stærstu fyrirtækjum heims vegna þess að þeir eru duglegri og tilbúnir að ganga lengra en konur í að setja starfsferilinn í fyrsta sæti. Hann segir líka að konur giftist ekki körlum sem þéna minna en þær, sem er rangt — í Bandaríkjunum þéna til dæmis um 30 prósent kvenna meira en eiginmenn þeirra. Loks finnst honum varasamt af konum að nota farða og klæðast háum hælum í vinnunni vegna þess að það er kynferðislega ögrandi — mjög sérstakt, í ljósi þess að hann hvetur unga menn til að taka ábyrgð á sjálfum sér.
Það er auðvelt að skilja að þessi málflutningur fari í taugarnar á fólki. Og það er líka auðvelt að skilja að fólk sé að missa þolinmæðina gagnvart internetinu með sínum reglulegu upphlaupum. Ég get hins vegar skilið upphlaupin. Oftast. Margir hópar í samfélaginu hafa verið jaðarsettir mjög lengi og samfélagsmiðlar gáfu þeim öllum í einu rödd. Röddina tóku þeir fegins hendi og það er skiljanlegt að þeir þurfi að stíga á nokkrar tær í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi.
Við erum enn þá að venjast slagkrafti samfélagsmiðlana og það getur verið erfitt að hlusta þegar allir öskra í einu. Það þýðir hins vegar ekki að það sé nauðsynlegt að taka skref aftur til fortíðar — eitthvað sem mér finnst eins og Jordan Peterson tali fyrir.
„Enforced monogamy“
Ummæli Jordan Peterson í viðtali við New York Times í síðustu viku vöktu mikla athygli. Nellie Bowles, blaðakona, New York Times, ræddi við Peterson um Alek Miniassian, sem myrti tíu og særði 16 þegar hann ók sendibíl á fólk í Toronto í Kanada í apríl. Hann er hluti af hópi karla sem kalla sig incels — sem er stytting á „involuntary celibates“ eða „óviljandi skírlífi“. „Lausnin á þessu er þröngvað einkvæni (e. enforced monogamy),“ sagði Peterson í viðtalinu og internetið fór á hliðina.
Blaðakona New York Times hefur verið sökuð um að snúa út úr orðum Peterson, sem birti í kjölfarið færslu á vefsíðu sinni þar sem hann útskýrir mál sitt. Hann hafnar því að hafa lagt til að fólk yrði neytt í samband í krafti einhvers konar lögregluríkis, eða að konum verði úthlutað til karla sem lifa óviljandi skírlífi.
„Enginn skandall,“ segir Jordan. „Bara almenn skynsemi: Samfélag sem ýtir undir einkvæni dregur úr ofbeldi karla.“ Máli sínu til stuðnings vísar hann í rannsókn frá 1988 þar sem kemur meðal annars fram að þegar karlar myrða aðra karla, þá gera þeir það að stórum hluta óaðvitandi til að verja stöðu sína og orðspor til að ganga í augun á konum.
Höfum í huga að samfélagið ýtir nú þegar undir einkvæni, þó það sé talsvert opnara fyrir því að fólk hagi (kyn)lífi sínu með fjölbreyttari hætti nú en á síðustu öld. Í færslu sinni segist Peterson einfaldlega hafa verið að segja að samkvæmt líffræðinni þá dregur einkvæni úr ofbeldi karla. Hann skautar framhjá því að ofbeldi sem á sér stað í nánum samböndum af hálfu karlkyns maka, kærasta eða sambýlismanns sé algengasta birtingarmynd ofbeldis gegn konum og þó hann hafni því að hafa sagst vilja að stjórnvöld beiti sér í þessum málum talar fyrir slíkum hugmyndum hér:
Could "casual" sex necessitate state tyranny? The missing responsibility has to be enforced somehow…
— Dr Jordan B Peterson (@jordanbpeterson) December 17, 2016
Ég skil ekki hvernig þessar vangaveltur snúast ekki um að skerða frelsi fólks.
Þessi umræða kjarnar að mínu mati málflutning Jordans Peterson í fleiri tilvikum: Ákveðnir hópar eru óánægðir með hvernig samfélagið þróast frá hagsmunum þeirra. Hann virðist sammála og finnur lausnir í fortíðinni og handvelur líffræðilegar skýringar máli sínu til stuðnings. Þessi retorík virkar vel á stuðningsfólk hans sem getur vísað í niðurstöður rannsókna í æsispennandi rifrildum á internetinu.
Sértrúarsöfnurinn vs. the haters
Umræðan um Jordan Peterson er eins og pólariseruð og umræður verða. Öðru megin eru aðdáendur hans sem láta stundum eins og meðlimir í sértrúarsöfnuði; elta uppi umræður um Peterson, segja þau sem gagnrýna hann einfaldlega ekki skilja hann, segja hann tekinn úr samhengi og hóta jafnvel ofbeldi. Hinu megin er fólk sem hatar Peterson og allt sem hann stendur fyrir; sakar hann um að hata konur og minnihlutahópa, segir hann vera Youtube-fræðimann fyrir heimskt fólk og svo framvegis og svo framvegis. Þegar þessir tveir hópar koma saman er umræðan dæmd til að skila engri niðurstöðu.
Ýmislegt bendir þó til þess að þetta séu viðbrögðin sem Peterson vill framkalla. Af hverju myndi hann segja að femínistar þrái ómeðvitað hrottalegt yfirráð karla ef hann vill ekki vera umdeildur og skipta fólki í fylkingar? Þetta virkar líka vel fyrir bankareikninginn hans; nýja bókin 12 Rules for Life er sú mest selda í flokknum sínum á Amazon og hann er orðinn svo vinsæll fyrirlesari að hann fyllir Hörpu þrátt fyrir að kynningartextinn um viðburðinn hefjist á þessum orðum:
„Hvað getur taugakerfi venjulegs humars sagt okkur um að rétta úr okkur og um árangur í lífinu?“ (Hér tekur manneskja sem virðist vita mjög mikið um humra fyrir viðleitni Jordan Peterson til að réttlæta stigveldi samfélagsins með atferli humarsins).
Jordan Peterson segir sem sagt margt um margt
Jordan Peterson pakkar hugmyndafræði sinni í umbúðir af almennri skynsemi. Á meðal ráðanna tólf í nýjustu bókinni hans er að fólk ætti að rétta úr sér og taka til í herberginu sínu. Tvö mjög góð ráð að mínu mati — manni líður alltaf betur í hreinu herbergi. Ýmsir hafa þó bent á rangfærslur í málfutningi Jordans Peterson og hérna er til dæmis mjög löng greining, full af orðum og hugtökum sem ég þurfti að fletta upp, þar sem lögfræðiprófessorinn Seth Abramson gagnrýnir Peterson og segir til dæmis að allt sem hann segir um lög og réttarfar í frægu viðtali við Vice í febrúar sé rangt.
https://www.youtube.com/watch?v=T5ahmzySUB8
Abramson leggur hins vegar áherslu á að það sé alls ekki allt tóm vitleysa sem Peterson segir. „Hann segir margt sem allir sálfræðingar myndu segja — sumt er meira að segja mjög gagnlegt,“ segir hann en bætir hins vegar við að hugmyndafræði Peterson sé einhvers konar smættuð útgáfa af menningarheimspeki — stundum fengin að láni frá öðrum.
—
Jordan Peterson segir margt um margt. Í huga hans virðist lausnina yfirleitt að finna í fortíðinni (eða í atferli humarsins) en hvað vill hann? Eiga stjórnvöld að grípa í taumana í kynlífi almennings? Og hvað ef einhver segist ekki geta hamið sig þegar hann sér samstarfskonu sína með rauðan varalit — hann bara verði að áreita hana. Á þá að banna varalit vegna þess að mannskepnan er í eðli sínu gölluð eða eigum við að halda áfram að þróast og taka ábyrgð á gjörðum okkar?