Hagavagninn í Vesturbænum verður rifinn og nýtt húsnæði byggt á reitnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rakel Þórhallsdóttur og Jóhanni Guðlaugssyni, en þau hafa unnið að því að undanförnu að endurbyggja vagninn með það fyrir augum að opna þar veitingastað.
Eftir að vinna við endurbyggingu fór af stað kom í ljós að vagninn var of illa farinn til þess að hægt sé að laga hann „Með mikilli sorg í hjarta hefur sú ákvörðun verið tekin að rífa gamla Hagavagninn. Þegar við hófum breytingar á húsnæðinu kom sú staðreynd í ljós að hann er gjörónýtur og ekki er hægt að bjarga honum. Við erum bjartsýn á framtíðina og stefnum á að opna Hagavagninn í júlí. Við höldum í nafnið en kveðjum gamla kofann,“ segir í tilkynningunni sem birt var á Instagram í morgun.
Einn af þeim sem standa að opnun staðarins er rapparinn, Emmsjé Gauti. Hann segir allt hafa verið reynt til að endurgera gamla vagninn. „Þetta voru bara ekki aðstæður sem við gátum boðið upp á við matargerð. Ég veit að mörgum þykir vænt um þennan vagn og okkur líka – það var einmitt það sem heillaði til að byrja með: staðsetningin og lúkkið, þannig að þetta var erfið ákvörðun,“ sagði Gauti í samtali við Fréttablaðið.