Mannanafnanefnd synjaði í gær beiðni Sigurðar Hlyns Snæbjörnssonar, bónda á Öndólfsstöðum í Reykjadal, um að fá að breyta nafni sínu í Sigríður. Hann er afar ósáttur við niðurstöðuna og íhugar að fara með málið lengra.
Vefmiðillinn 641.is fjallaði fyrst um málið. Þar sagði Sigurður að lengi hafi staðið til að óska eftir breytingunni. „Ég heiti Sigurður eftir ömmu minni heitinni eins undarlega og það hljómar en vil bera hennar rétta nafn en ekki afbökun af því,“ segir hann.
Sigurður Hlynur var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar sagði hann Mannanafnanefnd vinna eftir undarlegum lögum. „Ég hélt að það væri komið fordæmi fyrir því að nöfn gætu verið bæði karlkyns og kvenkyns. Ég var því bara hissa. Nefndin vinnur eftir lögum sem eru pínu skrítin,“ sagði Sigurður á Rás 2 í morgun.
Af hverju má ég ekki bara ráða því hvað ég heiti? Það er ekki eins og ég ætli að heita straubolti
Sigurður Hlynur starfar sem bóndi og er þessa dagana á fullu í sauðburði. Hann kveðst í samtali við Rás 2 ekki útilokar að leita réttar síns fyrir dómstólum. Það verður skoðað eftir sauðburð.