Adrift, nýjasta kvikmynd Baltasars Kormáks, fær misjafna dóma í erlendum fjölmiðlum. Myndin fór í almennar sýningar í gær en hún var frumsýnd í Hollywood 24. maí.
Myndin er byggð á á sögu Tami Oldham og Richard Sharp sem ætluðu að sigla skútu frá Tahíti til San Diego árið 1983 og lentu í miklum hremmingum. Shailene Woodley og Sam Claflin fara með aðalhlutverk í myndinni. Woodley er þekktust fyrir leik sinn í Divergent þríleiknum en Claflin sló í gegn í Hunger Games myndunum.
Sjá einnig: Sjáðu stiklu úr næstu Hollywood-mynd Baltasars Kormáks
Umsagnir um myndina eru farnar að hrúgast inn á fjölmiðla ytra. Skiptar skoðanir eru um myndina en þegar þetta er skrifað er myndin með 65% á kvikmyndavefnum Rotten Tomatoes og er með einkunnina 6,6 á IMDB.
Í The Guardian fær myndin fjórar af fimm stjörnum. Í umsögn The Guardian segir: „Baltasar Kormákur heldur manni spenntum yfir þessari mynd. Það er sniðugt hvernig hann samtvinnar söguþráðinn og það endurspeglast svo í tökustíl hans. Þegar meirihlutinn af myndinni gerist á litlum bát þarftu að vera skapandi.”
Baltasar fær einnig mikið hrós í Entertainment Weekly og í New York Post: „Það er allt gert fagmannlega og Baltasar Kormákur sýnir okkur enn og aftur hvað hann er góður leikstjóri,” segir í umsögn Entertainment Weekly. Í New York Post segir: „Líkt og í Everest er Baltasar upp á sitt besta þegar hann rannsakar mannlegar hvatir í náttúruhamförum.”
Verstu útreiðina fær myndin í Philadelphia Daily News en þar fær myndin einungis eina stjörnu af fimm mögulegum. Þar skrifar kvikmyndagagnrýnandinn Gary Thompson að rómantíkin sé ekki sterkasta hlið Baltasars Kormáks.
Myndin verður frumsýnd hér á landi 13. júní næstkomandi.