Í morgun var frumsýnd ný auglýsing Coca Cola. Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson leikstýrði auglýsingunni sem hefur slegið í gegn hér á landi enda ansi mögnuð.
Sjá einnig: Sjáðu geggjaða auglýsingu Coca-Cola fyrir HM sem Hannes leikstýrði
Auglýsingin er stjörnuprýdd og HÚH-ið okkar fræga leikur stórt hlutverk. Fjölmargir þjóðþekktir Íslendingar koma fram í auglýsingunni.
Auglýsingin er hluti af herferð Coca-Cola sem nefnist SAMAN og í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að skilaboð herferðarinnar séu skýr:„Það eru ekki bara þeir 11 leikmenn sem eru á vellinum sem eru að spila á HM. Við erum öll að spila á HM, SAMAN.“
Coca Cola hefur nú sent frá sér myndband sem sýnir frá gerð auglýsingarinnar. Þar er farið yfir þá sjö mánuði sem tók að gera auglýsinguna. Í myndbandinu sem má sjá hér að ofan útskýrir Hannes einnig hugsunina á bak við auglýsinguna og hvernig það var að gera hana með fram atvinnumennsku í fótbolta.
„Að fá Hannes með okkur í þetta var hrein og klár draumastaða. Ekki nóg með það að hann er afbragðs leikstjóri og fagmaður fram í fingurgóma þá er hann auðvitað í landsliðinu,” segir Snorri Barón Jónsson sem sá um framleiðslu á auglýsingunni.
Hannes segist alltaf hafa haft ástríðu fyrir bæði fótbolta og kvikmyndagerð og að hann sé heppinn að geta samtvinnað það.
„Það er svolítið óvenjulegt að vera fótboltamaður og kvikmyndagerðarmaður. Þetta er það tvennt sem ég hef alltaf haft ástríðu fyrir. Áður en ég gerðist atvinnumaður í fótbolta þá var ég bara svo heppinn að ég get starfað við báðar ástríðurnar mínar. Þetta hentar mér mjög vel, að hafa eitthvað annað að hugsa um en bara fótboltann, dreifir svolítið huganum. Frekar en að taka fókus af hvort öðru þá bústar þetta bara hvort annað upp.”
Horfðu á myndbandið í spilaranum að ofan.