Forbes birti í síðustu viku lista yfir 100 tekjuhæstu íþróttamenn í heiminum. Listinn vakti athygli því að á honum voru engar konur og er þetta í fyrsta skipti í átta ár sem enginn kona er á meðal 100 tekjuhæstu íþróttamanna í heimi.
Listinn tekur saman vinningsfé, laun, auglýsingasamninga og bónusa sem aflað er frá 1. júní 2017 til 1. júní 2018 og samanstendur mgst megnis af íþróttamönnum í körfubolta, hafnarbolta, fótbolta og amerískum fótbolta.
Floyd Mayweather hnefaleikamaður vermir fyrsta sæti listans en áætlaðar árstekjur hans eru um 285 milljónir bandaríkjadala eða um 30,5 milljarða íslenskra króna.
Lionel Messi bolar Cristiano Ronaldo út sem tekjuhæsta fótboltamanni heims og vermir annað sæti Forbes listans með 111 milljónir dali en Ronaldo vermir þriðja sæti listans með 108 milljónir dala,
Bardagakappinn Conor McGregor er í fjórða sæti með 99 milljónir dala og Neymar er fimmti tekjuhæsti íþróttamaður heims með 90 milljónir dala. Körfuboltamennirnir LeBron James og Stephen Curry verma sjötta og áttunda sæti listans en á milli þeirra í sjöunda sæti er tenniskappinn Roger Federer. Í níunda og tíunda sæti eru þeir Matt Ryan og Matthew Stafford leikmenn í NFL deildinni í Bandaríkjunum.
Í fyrra var Serena Williams eina konan á listanum í 51. sæti en áætlaðar tekjur hennar voru 27 milljónir dala. Hún féll af listanum í ár vegna 13 mánaða fæðingarorlofs eftir að hún eignaðist fyrsta barnið sitt, Alexis Olympia Ohanian Jr., í september á síðasta ári. Þó að Willams hafi fengið 18 milljónir dollara fyrir auglýsingasamninga á þessu ári er hún samt fimm milljónum dala frá hundraðasta sætinu á listanum.
Í grein á Forbes fer Kurt Badenhausen yfir það af hverju engar konur séu á listanum. Hann segir listann sýna svart á hvítu mikinn launamun kynjanna í íþróttum. Hann tekur bandaríska kvennalandsliðið í fótbolta sem dæmi en liðið aflar meiri auglýsingatekna en karlalandsliðið. Kvennalandsliðið lagði fram kvörtun við Knattspyrnusamband Bandaríkjanna árið 2016 þar sem kom fram þær fengu aðeins borgað fjórðung af því sem karlarnir fá borgað.
Badenhausen bendir einnig á að leið kvenna inn á listann hafi verið í gegnum tennis. Síðan árið 2010 hafa þær Maria Sharapova, Serena Williams og Li Na verið einu konurnar á listanum en Sharapova er enn í keppnisbanni vegna lyfjaskandals, Li Na lagði spaðan á hilluna fyrir fjórum árum og Williams var í fæðingarorlofi.
En Badenhausen segir samsetningu listans líka breyst síðustu ár. Liðsíþróttir hafa tekið yfir einstaklingsíþróttir og það hafi bitnað mikið á konum. Raunveruleikinn sé sá liðsíþróttir kvenna afli ekki eins mikið af tekjum og liðsíþróttir karla. Kvennakörfuboltinn í Bandaríkjunum, WNBA, er með samning við íþróttasjónvarpsstöðina ESPN upp á 25 milljónir dala á ári sem er aðeins einn hundraðasti af samningi karladeildarinnar, NBA sem er með 2,5 milljarða dala samning. Og launin eru eftir því, karlarnir fá borgað um 100 sinnum meira en konurnar.