Hollenska tryggingafyrirtækið A.S.R hvetur Hollendinga til þess að styðja við Íslendinga á HM í Rússlandi í sumar. Hollendingar taka ekki þátt á mótinu í ár og því tilvalið að styðja við Ísland. Sjáðu myndbandið hér að neðan.
Í myndbandinu má sjá starfsfólk fyrirtækisins taka Víkingaklappið í hollensku borginni Utrecht. Þau eru flest klædd í blá föt og nokkur þeirra hafa málað íslenska fánann framan í sig á meðan aðrir hafa sett upp víkingahjálma.
Sjá einnig: McDonald’s leyfir okkur að vera með í HM auglýsingunni sinni þrátt fyrir að hafa yfirgefið okkur
„Við finnum til með Hollendingum sem taka ekki þátt í ár en við höfum ákveðið að styðja annað land, Ísland. Ísland er minnsta þjóð sem hefur tekið þátt í sögu HM en þar búa jafn margir og í Utrecht. Þau þurfa því á auka stuðningi að halda.”
Hollendingar eru hvattir til þess að sýna Íslendingum stuðning með því að senda inn myndbönd af sér með fjölskyldu, vinum eða liðsfélögum að taka Víkingaklappið.
Í athugasemdum við myndbandið virðist fólk ánægt með framtakið og flestir hvetja Ísland áfram þrátt fyrir að það hafi verið Ísland sem kom í veg fyrir það að Holland hafi komist á Evrópumótið í Frakklandi fyrir tveimur árum.
„En frábært, ég mun pottþétt styðja Ísland þar sem maðurinn minn er Íslendingur,” segir ein kona í athugasemdum.