Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrum forsætisráðherra Íslands var kátur með 1-1 jafntefli Íslands gegn Argentínu í dag. Sigmundur sagði eftir leik að hann myndi gefa Hannesi Halldórssyni fálkaorðuna sína ef að hann fengi ekki sína eigin við næstu úthlutun.
Hannes Þór Halldórsson varði vítaspyrnu frá Lionel Messi í leiknum og átti frábæran leik líkt og allir íslensku strákarnir. Alfreð Finnbogason skoraði fyrsta mark Íslands í sögu HM.
„Stórkostlegur 1-1 sigur! Dreymdi 1-1 en þorði ekki að trúa því. Eftir Evrópukeppnina lofaði ég að láta Hannes hafa fálkaorðuna mína ef hann fengi hana ekki á Bessastöðum. Ef hann og strákarnir fá hana ekki við næstu úthlutun afhendi ég næsta dag. Þetta er algjörlega ótrúlegt afrek!“ skrifaði Sigmundur á Facebook síðu sína eftir leikinn.
Sigmundur var sæmdur fálkaorðu 25. desember árið 2014 þegar að hann var forsætisráðherra.