Yfir 4000 manns hafa skrifað undir undirskriftarlista sem gengur nú um á netinu þar sem ríkisstjórn Íslands er hvött til þess að fordæma aðgerðir bandarískra stjórnvalda á landamærum Mexíkó.
Bandarísk stjórnvöld hafa undanfarnar vikur aðskilið börn frá foreldrum sínum þegar þau telja að fólk sé að reyna að koma ólöglega inn í landið. Í byrjun maí tóku gildi nýjar reglur um aðskilnað barna og foreldra við landamærin.
Næstum því tvö þúsund börn voru aðskilin frá foreldrum sínum eða forráðamönnum sínum sem fóru ólöglega yfir landamæri Mexíkó til Bandaríkjanna á sex vikna tímabili.
Aðgerðir Bandaríkjanna hafa vakið hörð viðbrögð í heiminum. Dóra Magnúsdóttir setti af stað undirskriftarlistann sem er ætlaður ríkisstjórn Íslands.
„Varðhald og aðskilnaður barna frá fjölskyldum sínum er mikið áfall sem getur sett börn í mjög viðkvæma stöðu gagnvart misnotkun og ofbeldi og leitt til áfallastreitu sem geti haft áhrif á þroska barna til langframa.“
Hægt er að setja nafn sitt við undirskriftarlistann með því að smella hér.