Borgarðbókasafnið Gerðubergi fékk óvænta sendingu í dag. Tveimur barnabókum var skilað á safnið, sem ætti svo sem ekki að vera skrítið, nema fyrir þær sakir að þeim var skilað 46 árum of seint en upphaflega átti að skila þeim 4. febrúar árið 1972. Arnór Gunnar, starfsmaður bókasafnsins greindi frá þessu á Twitter í dag.
Sendingunni fylgdi útskýring á því hvers vegna bækurnar hafi verið svona lengi í óskilum. „Geymslutiltekt eftir nokkra búferlaflutninga. Betra seint en aldrei!“ stóð á miða sem fylgdi með bókunum „Ævintýrið um Agga álf og Lísu“ og „Ævintýrið um félagana fimm“.
Á miðanum kom einnig fram að lesendurnir séu nú háskólamenntaðir, hvort sem bækurnar hafi haft mikil áhrif á það eða ekki, og báðir fluttir til útlanda. Leigjandinn gat því ekki stillt sig um að skila bókunum. Loksins.
Einum Twitter-notanda lék forvitni á því að vita hversu há sektin fyrir að skila 46 árum of seint væri.
„Ef við reiknuðum með 60 krónum á dag í 46 ár væru þetta u.þ.b. milljón krónur á bók! En þau sleppa nú við þetta, sérstaklega fyrst bækurnar höfðu svona góð áhrif á lesendurna!“ svarar Arnór.
Aaaa við vorum að fá frábæra sendingu í pósti!! Tvær barnabækur sem átti að skila 4. febrúar 1972 ? bara 46 árum of seint pic.twitter.com/aEZLpJcHtR
— AGG (@arnorgg) June 28, 2018