Íbúar í þorpinu Innaarsui óttast afleiðingarnar af því ef að stærðarinnar borgarísjaki sem er hættulega nálægt landi brotni. Íbúarnir 150 óttast að ísklumpar brotni úr ísjakanum og valdi flóðbylgju.
Borgarráðsmaður sem grænlenska ríkisútvarpið ræðir við segir að ísjakinn sé hættulega nálægt landi og ef að hann brotni geti myndast flóðbylgja.
„Ef jakinn brotnar þá skapast hætta fyrir verslanirnar, rafmagnsveituna og önnur hús með fram ströndinni þar sem meðal annars eldri borgarar búa,“ segir Karl Petersen.
Búið er að gera rýmingaráætlun fyrir Innaarsui og bæjarbúar sem búa hvað næst jakanum hafa verið hvattir til þess að finna sér gististað ofar í bænum.
Karl Petersen hefur óskað eftir því að strandgæsla Grænlands mæti og komi ísjakanum burt frá bænum út á haf. Búist er við rigningu á norðanverðu Grænlandi en það er talið auka líkurnar á niðurbroti ísjakans.