Alþingi boðar til sérstaks hátíðarþingfundar á Þingvöllum í dag vegna 100 ára fullveldis Íslands. Stjórnarskrárfélagið hefur sent frá sér tilkynningu þar sem þingfundurinn er sagður endurspegla sýndarmennsku og valdhroka.
Félagið harmar það að þingið skulið minnast 100 ára afmælis fullveldis þjóðarinnar án þess að einu orði sé minnst á nýja stjórnarskrá Íslendinga og sakar stjórnmálaflokka á Alþingi um að hundsa fullveldi þjóðarinnar og niðurstöður þjóðaratkvæðisgreiðslu um nýja stjórnarskrá.
„Frá árinu 1944 hefur Alþingi haft það verkefni að semja nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Ótal stjórnarskrárnefndir hafa verið skipaðar án árangurs. Það var ekki fyrr en þjóðinni var hleypt að málinu að skriður komst á það. Íslenska þjóðin samdi sér nýja stjórnarskrá í kjölfar Hrunsins og samþykkti hana með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Alþingi hefur síðan þá hunsað niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Stjórnarskrárfélagið harmar að Alþingi Íslendinga skuli minnast 100 ára fullveldis með þeirri sýndarmennsku og valdhroka sem þessi þingfundur á Þingvöllum endurspeglar. Hve lengi á stjórnmálaflokkum á Alþingi að líðast að hunsa fullveldi þjóðarinnar?“ segir í tilkynningu.
Í stjórn félagsins sitja Katrín Oddsdóttir , formaður, Sigurður H. Sigurðsson, ritari og varaformaður, Kristín Erna Arnardóttir, gjaldkeri, Hjörtur Hjartarson, Ingólfur Harri Hermannsson, Sigríður Ólafsdóttir og Þórir Baldursson.
Fleiri eru ósáttir með það hvernig staðið er að fundinum en Illugi Jökulsson skrifar í pistli á Stundinni að augljóst sé að íslensk alþýða sé ekki velkomin á fundinn.
„Almenningur fær að horfa á fína fólkið hrista orðurnar sínar og skartið í beinni útsendingu í sjónvarpinu, en honum er ekki boðið. Og til að tryggja að fína fólkið fái örugglega að vera í friði, þá verður Almannagjá til dæmis lokuð almenningi,” skrifar Illugi á Stundinni.
Þá hafa margir mótmælt því að Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, muni flytja ávarp á fundinum en hún er þekkt fyrir baráttu gegn fjölmenningu og innflytjendum. Þetta verður í fyrsta skipti sem erlendur aðili ávarpar Alþingi.
Hverjum datt í alvörunni í hug að fá Pia Kjærsgaard, sem er einna þekktust fyrir hatursorðræðu í garð minnihlutahópa, til þess að ávarpa Alþingi á Þingvöllum í tilefni af 100 ára fullveldi Íslands. Þetta er ekki gott. Ekki gott.
— Freyr Eyjólfsson (@FreyrEyjolfsson) July 17, 2018
Það er eitthvað svo fallegt við það að VG hafi á einu augabragði orðið betri framsóknarflokkur en Framsókn. Ekki bara full blown þjóðernisíhald heldur núna að bjóða erlendum rasistum að halda hátíðarræður. Þetta hlýtur að vera einhversskonar heimsmet.
— Hans Orri (@hanshatign) July 17, 2018
Fréttablaðið greindi frá því í gær að kostnaður vegna fundarins gæti farið allt að 78 prósent umfram áætlun. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir kostnaðinn nú áætlaðan 70 til 80 milljónir króna.
Þingfundurinn hefst klukkan 14 á Þingvöllum. RÚV sýnir beint frá fundinum en útsending hefst klukkan 12:45.