Þingflokkur Pírata mun ekki taka þátt í hátíðarfundi Alþingis sem haldinn er í dag. Píratar segja að ástæðan sé ávarp Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir í samtali við fréttastofu RÚV að Píratar geti ekki veitt Piu lögmæti með nærveru sinni. Pia er þekkt fyrir baráttu gegn fjölmenningu og innflytjendum.
„Ég sé það sem svo að hið lýðræðislega tilraunaverkefni mannsins standi á tímamótum og hinum megin standi fasisminn,” segir Þórhildur við RÚV.
Sjá einnig: Ósætti með hátíðarþingfund Alþingis: VG á einu augabragði betri framsóknarflokkur en Framsókn
„Að bjóða Piu Kjærsgaard að ávarpa hundrað ára fullveldisafmæli Íslendinga, að gefa henni ávarpsrétt á löggjafarsamkomu Íslendinga er að færa henni lögmæti sem við getum ekki tekið þátt í og munum því ekki sækja hátíðarfund á Þingvöllum.”
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi fyrr í dag þá ákvörðun að fá Piu til að ávarpa þingið og sagðist ekki vera að styðja hennar skoðanir með því að sitja fundinn.