The Ferro Company, sem framleiðir meðal annars súkkulaðismjörið fræga Nutella, leitar nú að 60 „ófaglærðum“ smökkurum til að smakka vörurnar sínar. Einu kröfurnar sem fólk þarf að hafa eru engin ofnæmi og að kunna á tölvur að því er kemur fram í grein á vefsíðu Cosmopolitan. Hljómar eins og draumastarfið!
Vefurinn The Local greinir frá því að súkkulaðiframleiðandinn sé að leita að almennum neytendum með litla sem enga reynslu af smökkun til þess að smakka innihaldsefni varanna þeirra en tilgangurinn er að bæta vörurnar og tryggja gæði þeirra.
Samkvæmt auglýsingunni sem sett var á vefinn OpenJobsMetis þurfa starfsmenn að flytja til Ítalíu þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru. Smakkararnir vinna tvo daga í viku og þurfa ekki annað en að kunna á tölvur og vera ofnæmislaus og auðvitað elska súkkulaði. Þeir heppnu sem verða valdir hefja störf 30. september næstkomandi og byrja á því að fara í þriggja mánaða bragðlaukaþjálfun.
Þetta er í fyrsta skiptið sem súkkulaðiframleðandinn ræður til sín smakkara utan fyrirtækisins en þeir eru sérstaklega að leita að almennum neytendum sem hafa ekki mikla reynslu af smökkun og er starfið því fullkomið fyrir súkkulaðiunnendur.