Engin kynferðisofbeldismál tengd útihátíðum hafa verið tilkynnt Landspítalanum um helgina samkvæmt frétt á vef RÚV.
Upplýsingafulltrúi spítalans segir þetta í skriflegu svari til fréttastofu RÚV.
Sjá einnig: Veggspjald í Vestmannaeyjum: „Sofandi samþykkir ekkert”
Fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum að maður hafi áreitt unga konu kynferðislega með því að þukla á henni á bílastæðinu í Herjólfsdal. Vitni voru að atvikinu og var maðurinn handtekinn en ekki liggi fyrir kæra í málinu.
Einnig kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar að fíkniefnamálum hafi fjölgað frá því í gær og eru þau nú orðin 31 talsins sem sé svipaður fjöldi og í fyrra. Mest séu þetta neyslumál en í einhverjum þeirra er grunur um sölu á efnum. Lagt hefur verið hald á kókaín, amfetamín, kannabis, E-töflur og MDMA.