Skjálfti af stærðinni 6,9 reið yfir Indónesísku eyjuna Lombok í gær. Eyjan er vinsæll ferðamannastaður og hefur Utanríkisráðuneytið fengið spurn af tveimur Íslendingum sem eru staddir þar, þeir eru báðir óhultir. Skjálftinn fannst vel á nærliggjandi eyjum.
Samkvæmt síðustu fréttum hafa 98 einstaklingar látist í skjálftanum og búist er við því að sú tala muni hækka. Einnig er mikil eyðilegging á eyjunni. Um tíu þúsund einstaklingar hafa verið brottfluttir af eyjunni.
Margrét Helgadóttir og Katrín Ingibjörg Kristófersdóttir voru staddar á Gili-eyjum þegar skjálftinn reið yfir. Þær voru í hópi ferðamanna sem voru fluttir af Gili-eyjum.
Margrét segir í viðtali við AFP í Frakklandi að þakið á hóteli þeirra hafi hrunið. Til allrar hamingju hafi þær verið utandyra en fólk hafi verið skelkað og öskrað.
„Við frusum, blessunarlega vorum við úti. Allt varð svart, þetta var hryllilegt,” sagði Margrét.
Margrét hefur sagt frá upplifun sinni á Facebook síðu sinni og segir að þær séu nú komnar í útlendingaeftirlitið. Þetta sé það versta sem hún hafi upplifað á ævi sinni og að þeim langi heim.
Jóhanna Ósk Þorsteinsdóttir og Ómar Jökull Ómarsson eru stödd í brúðkaupsferð á Balí. Jóhanna segir í samtali við fréttastofu Vísis í dag að þar hafi þau fundið vel fyrir skjálftanum. Hún segist aldrei hafa verið jafn hrædd á ævinni.
Ólöf María Gunnarsdóttir er á ferðalagi um Balí ásamt þremur vinum sínum og fundu þau vel fyrir skjálftanum. Hún segir í samtali við Mbl að mikil hræðsla hafi gripið um sig á svæðinu
„Þetta var hræðileg lífsreynsla og erum við stanslaust að athuga hvort möguleiki sé á flóðbylgju,“ segir Ólöf við Mbl.