Lögreglan á Norðurlandi vestra vill ná tali af erlendum ferðamanni sem hefur ýmist gengið inn í hús eða bankað á dyr hjá fólki í umdæminu og spyr hvar sé hægt að finna gistingu. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Lögreglunni hafa borist nokkrar tilkynningar um manninn en ekki er vitað hvort hann sé að ferðinni í saknæmum tilgangi eða sé hreinlega að leita sér að gistingu.
Lögreglunni hefur ekki tekist að hafa uppi á ferðamanninum og ekki er vitað hvernig hann ferðast á milli staða en í athugasemd við færsluna kemur fram að hann hafi verið á ferðinni í Skagafirði í gær.