Karlmaður sem dæmdur var í 12 ára fangelsi vegna barnaníðs í Þýskalandi á dögunum mætti á réttarhöldin vel merktur Íslandi. Myndir sem þýskir fjölmiðlar birtu frá réttarhöldunum hafa vakið athygli og hafa margir furðað sig á því hvers vegna maðurinn sé klæddur fötum sem eru merkt Íslandi. Þetta kemur fram í frétt á vef DV í dag.
Barnaníðsmálið þykir afar óhugnanlegt og hefur vakið óhug út um allan heim og Þjóðverjar eru slegnir vegna hryllingsins. Móðir og stjúpfaðir drengs hafa boðið dreng upp á internetinu og selt barnaníðingum aðgengi að honum.
Stjúpfaðir drengsins var sá sem mætti merktur Íslandi í réttarsal en hann var klæddur í vesti þar sem útlína Íslands og íslenski fáninn sjást vel. Vestið er úr Europa-Park, einum stærsta skemmtigarði Evrópu sem er í grennd við Freiburg í Þýskalandi. Svæði garðsins eru merkt eftir löndum og þar er eitt svæðið tileinkað Íslandi.
Móðir drengsins var dæmd í tólf og hálft ár í fangelsi en stjúpfaðirinn í tólf ár. Þau voru sakfelld fyrir að hafa selt barnaníðingum aðgang að syni sínum tæplega 50 sinnum. Þau voru einnig sakfelld fyrir að hafa tekið upp myndband af nauðgunum á drengnum og dreifingu þeirra. Sex aðilar til viðbótar hafa verið dæmdir í fangelsi vegna misnotkunar á drengnum.