Ahh Friends, þættirnir sem halda áfram að gefa af sér þrátt fyrir að fjórtán ár séu frá því síðasti þátturinn fór í loftið. Glöggur aðdáandi þáttanna vakti athygli á einu skoti í lokaþætti seríunnar vinsælu á Reddit í gær.
Þar má sjá Joey Tribbiani, einn af sex vinum, í eldhúsinu heima hjá sér en aðdáendur hafa velt því fyrir sér hvað er í ofninum á bak við hann. Skjáskot úr þættinum má sjá hér að ofan.
Aðdáendur keppast um að giska á hvað þetta sé í raun og veru og vilja margir meina að þarna sé ungabarn inn í ofninum. Aðrir hafa nefnt hluti eins og gúmmí-kjúkling, hárlausan kött Rachel og M&M dót.
Á þeim fjórtán árum sem hafa liðið síðan þættirnir hættu á dagskrá hafa aðdáendur reglulega rifjað upp skemmtileg atvik í þáttunum og margar samsæriskenningar hafa litið dagsins ljós síðum eins og Reddit. Pistlahöfundurinn og kennarinn David Hopkins segir að sjónvarpsættirnir hafi komið af stað hruni vestrænnar siðmenningar.
Greint var frá því á miðlinum Ofcom á dögunum að þættirnir væru þeir vinsælustu á streymisveitum í Bretlandi en þættina má nálgast í gegnum Netflix.
Oft hefur komið upp í umræðuna að halda áfram framleiðslu á þáttunum vinsælu en Jennifer Aniston sagði á dögunum að hún væri spennt fyrir því að gera fleiri þætti.