Fjölmargir ætla að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu sem fer fram næsta laugardag, 18. ágúst og styðja ýmis góð málefni í leiðinni. Þar á meðal eru alls fimm ætliðir í kvennlegg sem ætla að hlaupa í minningu Einars Darra, ungs drengs sem lést fyrr á þessu ári eftir ofneyslu lyfsins OxyContin.
Einar Darri Óskarsson lést á heimili sínu þann 25. maí síðastliðinn aðeins 18 að aldri eftir ofneyslu lyfsins OxyContin og hafa fjölskylda og vinir hans stofnað minningarsjóð sem stendur fyrir og styrkir baráttuna #egabaraeittlif sem berst gegn fíkniefnum, með áherslu á misnotun lyfja meðal ungmenna á Íslandi.
Fjölmargir einstaklingar ætla að hlaupa til styrktar Minningarsjóðs Einars Darra í Reykjavíkurmaraþoninu þar á meðal hvorki meira né minna en fimm ættliðir í kvennlegg. Þær Pálína Bjarnadóttir langamma Einars Darra sem er 92 ára, Sigrún Anna Einarsdóttir amma hans, Bára Tómasdóttir móðir Einars Darra, Andrea Ýr Arnarsdóttir systir Einars og Ísabella Rós Pétursdóttir sem er frænka Einars Darra og fimm ára.
Fjölskylda Einars Darra vill með þessu varpa ljósi á það að allir Íslendingar, ungir sem aldnir, þurfi að standa saman og í sameingu getur þjóðin snúið við þeirri þróun sem á sér stað í misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum.