Auglýsing

Ferðaklúbburinn 4×4 lagaði skemmdir eftir frönsku ferðamennina

Franskir ferðamenn ollu miklu tjóni norðan við Kerlingafjöll í júlí með utanvegarakstri og voru í kjölfarið sektaðir um samtals 400 þúsund krónur. Mikið hefur verið rætt um málið en talsverðar skemmdir urðu á gróðri og jarðveg á svæðinu. Ferðaklúbburinn 4×4 tók til sinna mála og fóru nokkrir félagsmenn á svæðið um síðustu helgi og reyndu að laga skemmdirnar í samráði við rekstraraðila í Kerlingarfjöllum.

Sveinbjörn Halldórsson, formaður klúbbsins, segir í samtali við Nútímann að um algjört tilraunaverkefni hafi verið að ræða. Svæðið sé í bakgarði skála klúbbsins og því hafi félagsmenn viljað reyna að gera eitthvað til að laga ástand svæðisins.

Hann segir klúbbinn hafa barist lengi gegn utanvegaakstri og að markmið félagsmanna sé að stunda háldendið en skila því í sama ástandi og það var í fyrir. Það hafi því verið félagsmönnum í hag að reyna að bæta ástandið.

Fimm félagsmenn fóru saman á svæðið og stungu skóflum með fram förunum og ýttu undir jarðveginn. „Þetta gekk rosalega vel, algjörlega framar vonum,“ sagði Sveinbjörn en bætti við að svæðið sé mjög viðkvæmt.

Hann bendir einnig á að stjórnvöld séu dugleg að sekta fólk um mörg hundruð þúsund fyrir utanvegaakstur en það fari aldrei lengra en það, peningurinn rennur beint í ríkissjóð en sé ekki nýttur í laga skemmdirnar sem verði af utanvegaakstri. Einhverskonar verklag vanti utan um svona aðgerðir.

Aðspurður segir Sveinbjörn þetta í fyrsta skiptið sem klúbburinn geri tilraun til að laga ummerki eftir utanvegaakstur en hann vinni mikið með Umhverfisstofnun og Sjálboðaliðasamtökum um náttúruvernd (SJÁ) og fari meðal annars árlega með þeim í stikun og eyðingu villuslóða.

„Við gerum þetta klárlega aftur fyrst það gekk svona vel.“

För eftir annan bíl frönsku ferðamannanna

Mynd: Friðrik Halldórsson

Eftir að hópurinn hafði athafnað sig sjást förin mun minna

Mynd: Friðrik Halldórsson

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing