Íslenska karlalandsliðið í fótbolta fékk á horfa á þætti úr Suður-Ameríska draumnum í gærkvöldi og hitaði þannig upp fyrir leikinn gegn Belgíu í kvöld. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Hefð er fyrir því að liðið horfi á eitthvað fyrir stóra leiki. Í síðustu viku í Sviss horfðu strákarnir á Lof mér að falla, sem sló í gegn í kvikmyndahúsum um helgina. Strákarnir slógu hins vegar ekki í gegn í Sviss, heldur töpuðu 6-0 og eiga svo gríðarlega erfitt verkefni fyrir höndum í kvöld.
Í Suður-Ameríska draumnum keppa Auddi Blö og Steindi við Sveppa og Pétur Jóhann í ýmsum þrautum. Þættirnir verða frumsýndir á Stöð 2 í haust en strákarnir hafa áður fengið að sjá kvikmyndir á borð við Everst, Vonarstræti, Borgríki 2 og Undir trénu á undan öðrum, samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins.
Í umfjöllun um Suður-Ameríska drauminn á Vísi í vor sagðist Auddi vona að þáttaröðin toppaði Asíska drauminn. Steindi tók undir það og sagði aðalmálið við þessi ferðalög að snúa aftur heim á lífi. „Svo er ekki verra að vera með gott efni í farteskinu. Ég myndi segja að það séu svona 27 prósent líkur á því að þú komist ekki aftur heim,“ sagði hann.