Heildarkostnaður við hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum 18. júlí í sumar var 86.985.415. Þetta kemur fram á vef Alþingis í dag. Kostnaðurinn var „nokkuð“ umfram áætlun.
Hátíðarfundurinn var nokkuð umdeildur. Annars vegar vegna ávarps Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, en hún hefur látið til sín taka í málefnum innflytjenda, sem eru ekki hátt skrifaðir hjá henni. Þá þykir kostnaðurinn hafa verið mikill, sérstaklega miðað við dræman áhuga almennings á viðburðinum.
Í frétt á vef Alþingis kemur fram að kostnaður hafi verið „nokkuð“ umfram áætlun. „Er það einkum vegna þess að tekin var ákvörðun um að hafa lýsingu og hljóð af bestu gæðum þar sem atburðurinn var í beinni útsendingu,“ segir þar.
„Einnig var haft í huga að upptaka af fundinum myndi varðveitast til framtíðar sem heimild um sögu þjóðarinnar. Vinna við að bæta og laga göngustíga á Þingvöllum fyrir viðburðinn mun áfram nýtast gestum þjóðgarðsins.“