Valgerður Guðsteinsdóttir, hnefaleikakona mun mæta hinni norsku Ingrid Egner í bardaga um Eystrasaltsbeltið þann 20. október næstkomandi. Bardagi Valgerðar verður aðalbardagi kvöldins á „This is My House 2“ bardagakvöldinu í Skien Fritidspark í Osló. Það eru mmafréttir.is sem greina frá þessu.
Ingrid Egner, andstæðingur Valgerðar er ekki beint nýliði í greininni en hún er tífaldur Noregsmeistari í sínum þyngdarflokki. Bardaginn verður í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Viasat.
„Mér lýst mjög vel á hana. Hún er andstæðingur sem mig hefur lengi langað að fara á móti. Hún var legend í áhugamannaboxinu og ég hef vitað af henni þar í nokkur ár. Við erum hins vegar í atvinnuboxinu. Hér skiptir áhugamannaferillinn nákvæmlega engu máli og hér hef ég meiri reynslu en hún þó svo að ég sé sennilega hugsuð sem underdog af þeim sem eru að skipuleggja bardagakvöldið. Það er staða sem ég er vön að vera í og hentar mér mjög vel því öll pressan er þá á henni,” segir Valgerður í fréttatilkynningu sem birt var á mmafréttir.is
Valgerður er 33 ára gömul og hefur á stuttum ferli sínum barist fjóra atvinnubardaga. Þar hefur hún sigrað þrjá og tapaði einum.