Fyrir helgi var sýnt frá því í fréttatíma Stöðvar 2 þegar gjaldtöku í Hvalfjarðargöngin lauk eftir tuttugu ára innheimtu. Fréttamaður Stöðvar 2 greindi frá því að samkynhneigt par frá Ítalíu hafi farið fyrst endurgjaldslaust í gegnum göngin. Haukur Örn Birgisson veltir því fyrir sér hvort það hafi verið nauðsynlegt að taka fram að ferðalangarnir hafi verið samkynhneigðir í pistli sínum „Hommi flytur frétt“ í Fréttablaðinu í dag.
„Sambandsstatusinn var svo ítrekaður í miðri fréttinni. Nú spyr ég: hvaða máli skipti það fyrir fréttina að ferðalangarnir hafi verið samkynhneigðir? Höfðu ástir ökumanns og farþega fréttagildi? Hefði fréttamaðurinn sagt frá því ef ferðamennirnir hefðu verið vegan?“ skrifar Haukur.
Hann telur að nú til dags sé flestum sléttsama hver kynhneigð ökumanna bifreiða sé, hvort þeir séu hvítir, svartir, grannir eða feitlagnir.
Það skiptir bara engu máli og algjör óþarfi er að draga fólk í dilka þegar slík flokkun hefur enga þýðingu fyrir umfjöllunarefnið. Eða finnst fréttamanninum það hafa þýðingu fyrir umfjöllun um hans eigin fréttir að tekið sé fram að hann sé samkynhneigður, eins og gert er í fyrirsögn þessa pistils? Það væri galið, ekki satt?
Samkynhneigðu Ítalirnir fengu blómvönd frá Sigurði Inga Jóhannssyni, samgönguráðherra, þegar þeir komu út úr göngunum. Eins og má sjá í frétt Stöðvar 2 hér að neðan voru þeir ekki alveg vissir hvers vegna þeir fengu blómvöndinn.