Hjálmar Gíslason, stjórnarformaður Kjarnans birti í gær pistil á Facebook-síðu sinni sem vakið hefur gríðarlega athygli. Segja má að pistilinn sé opið bréf til karlmanna þar sem hann hvetur kynbræður sína til að hjálpast að við að verða betri í samskiptum við konur.
„Strákar: Ekki láta ljúga að ykkur að sá kjarkur sem konur hafa fengið til að stíga fram og segja frá reynslu sinni m.a. í kjölfar #metoo auki líkurnar á því að einhver okkar verði að ósekju sakaður um kynferðislega áreitni eða ofbeldi,“ skrifar Hjálmar.
Hann bendir á að tilhæfulausar ásakanir um kynferðisbrot eru ákaflega sjaldgæfar. Aftur á móti sé kynferðislegt áreiti og ofbeldi fáránlega algengt. „Áhættan sem konur taka á hverjum degi með því að umgangast karla í ýmsum kringumstæðum er margföld á við áhættuna á því að einhver okkar verði sakaður um eitthvað slíkt sem við höfum ekki framið. Ekki vegna þess að við séum allir hættulegir, heldur vegna þess að þær hafa ekki hugmynd um hverjum okkar þær geta treyst – rotnu eplin eru svo mörg.“
Hann biðlar til karlmanna að búa til umhverfi þar sem þeir hjálpa hver öðrum að haga sér vel. Í því samhengi nefnir hann nokkur atriði:
- „Látum hvern annan heyra það þegar við förum yfir strikin.“
- „ Ekki hlæja með eða láta hjá líða að byrsta ykkur þegar „allar eins þessar kellingar“, „það er bara sá tími mánaðarins“ eða „þessi þarf einn stífan“ línurnar fljúga – ekki heldur þegar það gerist í lokuðum hópum.“
- „Fariði með vini ykkar heim þegar þeir eru farnir að káfa á kvenfólki eins og þeir hafi einhvern rétt á því.“
- „Trúiði konum þegar þær segja frá áreitni og ofbeldi. Það eru yfirgnæfandi líkur á að þær séu að segja satt. Það er margfalt algengara að þeim sé ekki trúað þegar svo er, en að þeim sé trúað í þau fáu skipti sem þær gera mönnum upp sakir. Í slíkri afstöðu felst ekkert minni „saklaus uns sekt er sönnuð“ afstaða en að trúa henni ekki. Með því að efast um sögu hennar erum við að gera henni upp þá sök að vera að ljúga glæp upp á annan – og af því er hún líka saklaus uns sekt er sönnuð. Annað hvort þeirra er sekt – og oftast er það hann. Það er staðreynd.“
- „Já og að lokum: Hversu margar konur haldiði að hafi sagt upp í vinnu eða jafnvel verið látnar fara vegna „samstarfsörðugleika“ sem áttu sér rót í áreitni eða óviðeigandi hegðun af hálfu samstarfsmanna þeirra?“
Pistil Hjálmars má sjá í heild hér að neðan
Strákar: Ekki láta ljúga að ykkur að sá kjarkur sem konur hafa fengið til að stíga fram og segja frá reynslu sinni m.a….
Posted by Hjalmar Gislason on Fimmtudagur, 11. október 2018