Kvikmyndaleikstjórinn og leikarinn Baltasar Kormákur kom að eigin sögn mörgum á óvart þegar hann hætti að drekka áfengi árið 2002. Þrettán árum síðar fór Baltasar að sækja fundi hjá AA-samtökunum. Þetta kom fram í þættinum Með Loga sem sýndur var í Sjónvarpi Símans í vikunni.
„Ég var svona partýbytta. Ég átti það til að drekka mig örvita á almannafæri og átti auðvitað Kaffibarinn mjög lengi og átti mitt horn þar,“ segir Baltasar þegar hann rifjar upp árin áður en hann hætti að drekka.
Það var á þessum tíma sem hann áttaði sig á því að nú yrði hann að stoppa. „Ég vil nú meina að það sé einhver áttaviti inn í manni. Hann vissi að þetta gat ekki gengið svona áfram. Ég átti orðið stóra fjölskyldu og konu sem ég elskaði og ég vildi ekki klúðra því,“ segir hann.
Baltasar fór ekki í meðferð heldur ákvað hann einn daginn að nú væri komið gott. „Ég þurfti að gera þetta á minn hátt. Ég er alls ekki að segja að það sé aðferðin. Fólk þarf bara að finna sína leið með þetta,“ segir Baltasar sem fór að sækja fundi þrettán árum síðar.
Þó svo að hann hafi ekki sótt fundi fyrr en mörgum árum eftir að hann setti tappann í flöskuna fann hann að það gerði honum gott „Mér fannst það æðislegt. Það er svo mikill máttur í samkennd fólks. Ég hafði aldrei dílað við raunveruleg orsök alkahólismans. Ég hafði slökkt á honum en ekki farið nógu djúpt,“ segir Baltasar.
Þáttinn Með Loga má finna í Sjónvarpi Símans Premium.