Sigmar Freyr Jónsson, sonur Jóns Páls Sigmarssonar heitins, ræðir opinskátt um steranotkun sína í þættinum Kveikur á Rúv í kvöld. Sigmar Freyr misnotaði stera í mörg ár og segir frá upplifun sinni. Brot úr þættinum má sjá á vef Rúv.
„Það var náttúrulega rosalega skemmtilegt fyrst. Þegar þetta var að byrja að virka fyrst: „Já, svo það er svona sem það er að vera karlmaður.“ Þannig að það var rosalega skemmtilegt, fannst mér, maður var fullur af sjálfstrausti og kynorku,“ segir Sigmar í þættinum.
Sigmar fer um víðan völl í þættinum. „Ég man að ég hætti að nota stera í heilt ár og hafði smá áhyggjur. Ég var ekki orðinn þrítugur og ég fann að kynhvöt og kyngeta kom ekkert til baka á heilu ári.“
Í þættinum Kveik á Rúv í kvöld verður fjallað ítarlega um steranotkun hér á landi. Ávísunum á stera fjölgar líka mikið en þær eru um helmingi algengari hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum, að því er fram kemur í þættinum sem sýndur er klukkan 20:05 í kvöld.