Í einni hliðargötu internetsins má finna samfélag fólks sem deilir myndum af brauðsneiðum sem þau hafa heftað við tré. Það eru 132 þúsund manns sem fylgja þessari síðu og berast nýjar myndir af súrdeigsbrauði, croissanti, naan og sultusmurðum sneiðum daglega á síðuna.
Á undirsíðu reddit /r/BreadStapledToTrees, eru 5 einfaldar reglur.
- Ekki setja inn brauðlausa færslu.
- Ekki setja inn færslu með óheftuðu brauði.
- Ekki hefta brauðsneiðar við aðra hluti en tré.
- Ekki vera rasshattur
- Ef þú heitir Jeffrey þá ertu ekki velkominn
- Ludacris
- Félagi!
Það er erfitt að sjá hvernig sumar reglurnar tengjast síðunni, en fyrstu þrjár ná vel að skilgreina hvað fer fram á síðunni.
Hefðbundin hveitibrauðssneið heftuð við myndarlegt tré.
Fríkvöldið vel nýtt
Vinsælasta innleggið, þegar greinin er skrifuð, snýst um samskipti feðga. Sonurinn sendi mynd af nýheftuðum brauðsneiðum til föður sín. „Ættiru ekki að vera að læra?“ Spyr áhyggjufullur faðir. Strákurinn svarar að þetta sé fríkvöld. Svo bíða hans 18 skilaboð til viðbótar þar sem hann þarf örugglega að svara fyrir þessa mynd. Glöggir sjá að tréð í bakrunni komst ekki hjá því að vera heftað.
Stórar sneiðar, lítil tré
Ekki er krafa um að tréð sé stórt. Hér má sjá myndarlega fransbrauðsneið sem kæmist auðveldlega utan um hrísluna sem það er heftað við. Þarna eru uppfyllt helstu skilyrðin: þarna er brauð, það er heftað við tré og notandinn heitir ekki Jeffrey.
Sulta á brauði og gaddavírað tré
Hér er dramatísk mynd af sultuþöktu brauði sem heftað er við gaddavírað tré. Á skorpunni situr svo vespa og gæðir sér á sultunni. Einhverjum gagnast þá þetta æði.
Þáttaröðin Flækt í netinu er tilraun undirritaðs til að varpa ljósi á sérkennilega kima internetsins.