Tvennt er í haldi lögreglunnar á Suðurlandi vegna brunans sem upp kom í einbýlishúsi á Kirkjuvegi á Selfossi skömmu fyrir klukkan 16 í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglunni á Suðurlandi sendi frá sér.
„Húsráðandi og gestkomandi kona eru í haldi lögreglu vegna rannsóknar á eldsupptökum. Grunur er um að karl og kona hafi verið á efri hæð hússins þegar eldurinn kom upp. Þeirra er nú leitað,“ segir í tilkynningu.
Í tilkynningunni segir einnig að sérfræðingar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi verið kallaðir til aðstoðar við rannsókn málsins.
Lögreglan hefur beðið vegfarendur að halda sig frá vettvangi til að trufla ekki störf viðbragðsaðila. Þá eru nágrannar beðnir um að loka gluggum.