Rapparinn Herra Hnetusmjör segir frá baráttu sinni við vímuefni í einlægu viðtali við þá Arnór Svein Aðalsteinsson og Bergsvein Ólafsson í hlaðvarpsþættinum Millivegurinn. Hlustaðu á þáttinn í spilaranum hér að neðan.
„Sumarið 2016 var max rugl. Mikil neysla og engin rútína, það er náttúrlega engin rútína í neyslu. Ég var farinn að sjá svolítið mynstur á sjálfum mér þetta sumar. Í hvert skipti sem ég datt í það vissi ég ekki hvenær ég myndi stoppa,“ sagði Herra í þættinum.
Sjá einnig: Herra Hnetusmjör lét flúra á sig æðruleysisbænina: „Er edrú og finnst nett að vera með bæn á bakinu“
Það var svo í lok árs 2016 sem hlutirnir fóru að versna. Við tökur á myndbandinu 203 stjórinn var enn einum botninum náð að sögn Árna. „Ég er að skjóta myndband yfir helgi og skýt partý-senu á laugardeginum og á að mæta klukkan 9 eða 10 morguninn eftir í fleiri tökur. Ég ætlaði bara að taka því rólega þessa helgi, taka þessa senu og svo fara heim en það endaði náttúrulega ekki þannig. Ég vakna ekki fyrr en fjögur eða fimm daginn eftir.“
Mér langaði ógeðslega að fara að skjóta þetta myndband en ég bara hafði ekkert um það að segja
Viku eftir þetta atvik var hann kominn inn á Vog og myndbandið kemur út á meðan hann er þar. „Þessi partý-sena sem er í myndbandinu er í raun bara síðasta djammið mitt,“ segir Herra sem fór í kjölfarið í eftirmeðferð á Staðarfelli í einn mánuð.
Hann kemur úr meðferð rétt fyrir jólin 2016 og hefur frá þeim tíma verið edrú. „Þá fór ég bara að vinna í mínum málum og er búinn að vera að því síðan.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan
Myndbandið sem sýnir síðasta djamm Herra Hnetusmjörs