Uppistandarinn Jakob Birgisson, eða Meistari Jakob eins og hann kallar sig mun skemmta á herrakvöldi knattspyrnudeildar Vals um helgina. Jakob kemur í stað Björns Braga Arnarssonar sem átti að koma fram á kvöldinu. Það er Vísir.is sem greinir frá þessu.
Sjá einnig: Ari Eldjárn lofar Jakob Birgisson: „Annað eins talent hef ég ekki áður séð“
Í samtali við Vísi.is segir Lárus Bl. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vals, að það hafi verið sameiginleg ákvörðun þeirra og Björns Braga að hann myndi ekki koma fram á kvöldinu.
Eins og fjölmiðlar hafa fjallað um fór myndband sem sýndi Björn Bragi vera að þukla á 17 ára stúlku fór í dreifingu á samskiptamiðlum. Björn sendi í kjölfarið frá yfirlýsingu vegna málsins.
Í yfirlýsingunni greinir Björn frá því að hann hafi haft samband við stúlkuna og fjölskyldu hennar og beðið þau afsökunar á hegðun sinni. „Þessi hegðun mín var algjörlega óásættanleg og ég er miður mín yfir því að hafa hagað mér með þessum hætti. Það að ég hafi verið undir áhrifum áfengis er engin afsökun. Ég setti mig í samband við stúlkuna og fjölskyldu hennar fyrr í kvöld. Ég bað hana einlægrar afsökunar á framkomu minni.“