Vinningshafi sem vann tæpar 16 milljónir króna í lottó um liðna helgi ákvað að halda vinningnum leynilegum frá eiginkonu sinni þar til að hann fengi vinninginn staðfestan. Um var að ræða 7 talna kerfismiða sem maðurinn var með í áskrift og innhélt miðinn afmælisdaga og afmælismánuði fjölskyldumeðlima.
Maðurinn sá tölurnar á sunnudag en hélt því leyndu frá eiginkonu sinni þó það hafi verið erfitt. Hann fékk hana með sér til Getspár næsta dag en sagði henni að það væri einungis smá vinningur á miðanum og hann þyrfti að fá nánari útskýringu á kerfisseðlinum.
Í fréttatilkynningu frá Getspá segir að góðu fréttirnar hafi kallað fram faðmlög og gleðitár og það ekki aðeins hjá vinningshöfunum heldur einnig starfsfólkinu sem fékk að taka þátt í að segja henni frá.
“Það má því segja að frúin hafi verið plötuð til að taka á móti vinningi upp á tæpar 16 milljónir króna. Starfsfólk Íslenskrar getspár óskar hjónunum innilega til hamingju með þennan glæsilega vinning,“ segir í tilkynningu.