Viðbragðsaðilar á vettvangi fundu í morgun karl og konu sem fórust í eldsvoða við Kirkjuveg á Selfossi í gær. Fólkið var í kjölfarið flutt af vettvangi, að sögn Péturs Péturssonar, slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu. Það er Rúv.is sem greinir frá þessu.
Vísir.is greinir svo frá því að bæði karlinn og konan hafi verið gestkomandi í húsinu. Þau voru á fimmtugs- og sextugsaldri.
Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi og fulltrúar frá Mannvirkjastofnun vinna nú að rannsókn málsins. Tvennt er í haldi lögreglunnar á Suðurlandi vegna brunans en ekki hefur verið unnt að taka skýrslu af þeim vegna ástands þeirra.