Lilja Hrönn Einarsdóttir sagði sögu sína í fjáröflunar- og fræðsluþættinum Allir krakkar á RÚV í gærkvöldi. Í þættinum sagði Lilja frá sínu fyrsta sambandi en hún var þá 16 ára gömul í sambandi við eldri strák sem beitti hana grófu ofbeldi. Sjáðu brot úr viðtalinu hér.
Í viðtalinu sagði Lilja að kærastinn hefði horft á mikið klám og að allar hans gjörðir gagnvart henni hafi litast af því. „Ég hélt bara að sambandið ætti bara að vera svona. Hann var búinn að sannfæra mig um það að þetta væri eðlilegt, ef mér leið ógeðslega illa og innst inni fannst mér þetta ganga yfir mín mörk en þá náði hann alltaf að snúa því upp á mig,“ sagði Lilja.
Hann var að búa til sína klámmynd. Hann var bara að búa til sitt og ég var bara dótið hans
Sambandið varði í tvö ár en Lilja er enn að glíma við afleiðingar þess. Hún telur vanta betri fræðslu um samskipti og mörk í skólum landsins. „Ef að unglingskrakkar þurfa að fá fyrirmyndir sínar úr klámi sem er ekkert annað en ofbeldi, það segir svolítið mikið,“ sagði Lilja.
Rætt var við Lilju Hrönn og móður hennar í þættinum, ásamt fleirum. Þáttinn má nálgast í heild sinni hér.