Grínistinn og fyrrum borgarstjórinn Jón Gnarr birti mynd af sér og hundi sínum, Klaka á Twitter í vikunni. Það var þó ekki fallegur hundurinn, sem er af sjaldgæfri tegund hvítra Schaeffer-hunda, sem vakti mesta athygli en á stofuvegg Jóns má sjá listaverk eftir breska götulistamanninn Banksy.
við Klaki bjóðum góða nótt pic.twitter.com/TtvlumSHRP
— Jon Gnarr (@Jon_Gnarr) November 6, 2018
Listaverkið er ósvikið Banksy-verk sem gefið var Jóni í borgarstjórnartíð. Verkið ber ýmist titilinn “Rage, Flower Thrower” eða “Flower Bomber” og er eitt frægasta verk listamannsins. Talið er að verkið hafi fyrst birst á stórum vegg í borginni Jerúsalem, eftir að mótmæli brutust út þar í borg eftir gleðigöngu hinsegin fólks árið 2005.
Strangar reglur gilda um gjafir til kjörinna embættisfulltrúa en Jón greinir frá því í samtali við Fréttablaðið að verkið hafi verið persónuleg gjöf til síns sjálfs og aldrei tengst embætti borgarstjórans á neinn hátt að því undanskildu að verkið prýddi vegg skrifstofu borgarstjórans.
“Þetta var bara til mín, þannig var það skilgreint, að þetta var persónulega ætlað mér,” segir Jón Gnarr í samtali við Fréttablaðið.
Fréttablaðið / GVN
Myndin prýddi eins og áður segir borgarstjóraskrifstofu Jóns en í viðtali við borgarstjórann fyrrverandi frá árinu 2012 við vefinn The Rumpus berst talið að einstöku listaverkinu. Stíll götulistamannsins er auðþekkjanlegur og eru verk hans metin á tugi milljónum króna. Í viðtalinu við vefinn greinir Jón frá því að hann hafi sent listamanninum skilaboð, enda mikill aðdáandi hans, og óskað eftir verki eftir hann.
Það var þó ekki Banksy sjálfur sem svaraði, en listamaðurinn fer huldu höfði og er það talskona listamannsins sem svarar Jóni og lofar honum verki, gegn því skilyrði að myndin fái að hanga á vegg borgarstjóraskrifstofunnar. Svo virðist sem Banksy hafi verið upplýstur um að þarna hafi borgarstjóri Reykjavíkur verið að óska eftir verki og ekki er ólíklegt að uppreisnargirni Jóns í kjörnu embætti hafi ratað í eyru götulistamannsins sem þekktur er fyrir samfélagslegar ádeilur sínar.
Jón segist hinsvegar ekki hafa óskað eftir myndinni í krafti borgarstjóraembættisins og að enginn vafi hafi leikið á því að verkið tilheyrði honum sjálfum en ekki embætti borgarstjóra.
„Nei, það var ekkert. Ég hafði samband við hann og óskaði eftir að fá verk frá honum og eftirlét honum með hvaða hætti eða hvernig verk það væri. Þannig að hann vildi bara gefa mér þetta verk. Hann gerir það voða sjaldan. Hann gefur yfirleitt ekki verk,“ segir Jón í Fréttablaðinu.
„Það var enginn í neinum vafa um að þetta var eitthvað sem tilheyrði mér og hafði ekkert með það að gera að ég væri borgarstjóri. Það er voða mikið prótókol á því hvað þú mátt þiggja af gjöfum, en sem einstaklingur máttu alveg fá gjafir. Það var aldrei skilningur neins að þetta væri einhverjum vafa undirorpið. Hefði ég haldið að það væri einhver minnsti vafi á því hefði ég aldrei þegið það.“ bætir hann við.
Gjöfin hefur verið mikill heiður enda er listamaðurinn ekki þekktur fyrir að gefa verk sín. Nú á dögunum stóð Banksy fyrir listagjörningi þar sem hann eyðilagði eitt frægasta verk sitt, “Stúlka með blöðru”, í tætara fyrir fullum sal listunnenda og birti myndskeið af gjörningnum á Instagram-reikningi sínum.
Verkið, sem er flennistórt og auðþekkjanlegt af stíl listamannsins umdeilda er hæglega milljónavirði ef marka má sölu- og uppboðsverð á eftirprentunum Banksy-verkanna. Jón segist þó aldrei hafa látið meta verkið enda hyggist hann ekki selja það í bráð og prýðir það nú stofu grínistans.