Annie Mist Þórisdóttir gekkst undir hjartaaðgerð á mánudag vegna hjartsláttartruflana sem hún hefur glímt við undanfarin fimm til sex ár. Hún segist þakklát að hafa látið verða að því að fara í aðgerðina og þó að vandamálið hafi ekki verið lagað að fullu viti hún nú að þetta er eitthvað sem hún þurfi ekki að vera hrædd við. Þetta kemur fram á Vísi.
Annie segir á Instagram að hún hafi þurft að hætta að æfa eftir heimsleikana í Crossfit í ágúst vegna hjartsláttartruflana. Hún hafi í kjölfarið látið skoða vandamálið til að kanna hvort hægt væri að gera eitthvað.
Hún hafi því farið í hjartaþræðingu nú á mánudag en þar hafi komið fram að erfitt gæti reynst að laga vandann og hún sé ekki tilbúinn að taka áhættuna að laga hann að fullu eins og staðan er í dag. Hún segist þó bjartsýn.
„Það kom í ljós hvaðan auka slögin eru líklega að koma en það er frá stað sem ég er ekki viss um að ég vilji taka áhættu á að láta laga núna. Allt gekk mjög vel og það kom í ljós að ég er með gífurlega sterkt hjarta,“ skrifar Annie á Instagram.
Nú er bara að byrja að æfa á fullu eftir fimm daga. Þetta mun ekki hægja á mér.