Inga Sæland, Oddný Harðardóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna upptökunnar þar sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins tala um þær með niðrandi hætti. Þetta kemur fram á vef Kjarnans.
Í yfirlýsingunni kemur fram að þau ummæli sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla þann 20. nóvember á Klaustri lýsi skammarlegum viðhorfum til kvenna og þær líti þau verulega alvarlegum augum. Það sé algjörlega óliðandi að karlar í valdastöðum sýni slíka kvenfyrirlitningu og tjái sig á jafn niðrandi hátt um konur og samkynhneigða.
Þær segja að ummælin dæmi sig sjálf og opinberi viðkomandi þingmenn. Þetta sé ekki til þess fallið að auka virðingu almennings á Alþingi eða stjórnmálamönnum. Hegðunin setji samstarf og trúnað í uppnám. Þær fordæma ummælin og munu óska eftir því að málið verði tekið upp í forsætisnefnd.
Í lok yfirlýsingarinnar minna þær á eftirfarandi siðareglur sem þingmenn hafa undirgengist.
Meginreglur um hátterni.
1. gr. Alþingismenn skulu sem þjóðkjörnir fulltrúar: a. rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika, b. taka ákvarðanir í almannaþágu, c. ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni, d. nýta þá aðstöðu sem þeim er veitt við störf sín með ábyrgum hætti, e. ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra, f. greina frá öllum hagsmunum sem máli skipta og varða opinbert starf þeirra og leggja sig fram um að leysa úr árekstrum sem upp kunna að koma með almannahag að leiðarljósi, g. efla og styðja grundvallarreglur þessar með því að sýna frumkvæði og fordæmi.
Hátternisskyldur. 7. gr. Þingmenn skulu í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.