Söngvarinn Friðrik Ómar Hjörleifsson segir að ummæli Gunnars Braga um hann í upptökum sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum í dag fái ekki á hann. Hann taki ummælunum ekki persónulega. Friðrik Ómar var gestur í þætti Sigga Gunnars á K100 í morgun.
Ein ummælin sem vöktu athygli úr upptökum sem Stundin og DV fjölluðu um voru ummæli Gunnars Braga. Hann sagði að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði sloppið í gegn „eins og smjör á smokknum hjá honum þarna Friðriki Ómari,“ í umfjöllun fjölmiðla þegar Geir var skipaður sendiherra Íslands í Washington.
Sjá einnig: Sigga Dögg varar fólk við því að smyrja smjöri á smokka: „Eykur hættuna á að smokkurinn rifni“
„Mér finnst þetta fyndið, það var það fyrsta sem mér datt í hug. Þetta fær ekki á mig og ég tek þessu ekki persónulega. Allt svona finnst mér leiðinlegt fyrir ungt fólk sem ætlar að stíga skrefið og koma út úr skápnum,“ segir Friðrik á K100.
Friðrik telur að Gunnari Braga sé ekki persónulega illa við sig heldur hafi kynhneigð hans verið það sem hafi skipt máli í þessu tilviki.
„Mér finnst þetta kannski bara leiðinlegt af því að ég held að hann hafi bara gripið nafn mitt á lofti fyrir hönd okkar hinsegin fólks,“ segir Friðrik Ómar.
Friðrik grínaðist á Instagram í gærkvöldi og steikti smokk upp úr smjöri. Hér að neðan má hlusta á viðtal hans hjá Sigga Gunnars.