Guðni Th. Jóhannessyni forseta Íslands ofbauð ummæli sexmenninganna sem sátu á Klausturbarnum þann 20. nóvember síðastliðinn. Guðni greindi frá þessu í Silfrinu á Rúv í morgun.
Upptökur af samtölum sex alþingismanna á Klausturbarnum voru birtar í fjölmiðlum í vikunni og hafa vakið mikla reiði. Guðni segir umræður sexmenninganna bera vott um virðingarleysi.
„Auðvitað ofbauð mér, eins og öllu fólki sem á þetta hlustaði. Orðfærið, virðingarleysið, sjálfsupphafningin. Og þetta er ekki leiðin til þess að auka traust landsmanna á Alþingi að viðhafa svona orðfæri sem er til merkis um einhvern undirliggjandi vanda,“ sagði Guðni.
„Ég held það yrði ekki til framdráttar góðum málstað ef ég færi að setja mig á afskaplega háan stall og segja öðrum til syndanna. En um leið leyfir maður sér að vona að fólk finni hjá sjálfu sér hvað það hefur gert og hvernig beri að bregðast við.“