Gleðipinnar, rekstaraðilar Keiluhallarinnar og Hamborgarafabrikkunnar, hafa keypt ráðandi hlut í pizzastaðnum Blackbox í Borgartúni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu í dag.
Nýi eigendahópur staðarins samanstendur því af stofnendum staðarins, þeim Karli Viggó Vigfússyni og Jóni Gunnari Geirdal, ásamt Jóhannesi Stefánssyni og fjölskyldu í Múlakaffi og Jóhannesi Ásbjörnssyni.
Í fréttatilkynningu segir að markmið hins nýja eigendahóps sé að fjölga Blackbox pizzastöðum á næstu misserum og styrkja félagið til framtíðar. Þau verkefni verða leidd af Karli Viggó og Jóni Gunnari.
„Við fögnum því að fá til liðs við okkur öfluga aðila með mikla reynslu úr veitingageiranum. Frá upphafi hefur framtíðarsýn Blackbox verið mjög skýr og þessari sýn deila nýir hluthafar með okkur. Framundan er skemmtilegt ferðalag og fjölbreyttar Blackbox fréttir væntanlegar,“ segir Jón Gunnar Geirdal, einn stofnenda Blackbox.
Blackbox Pizzeria opnaði 22. janúar sl. í Borgartúni 26 og hefur notið mikilla vinsælda. Blackbox afgreiðir eldbakaðar, súrdeigsbotns pizzur með hágæða hráefnum. Snúningsofn sem nær gífurlegum hita eldbakar pizzuna á aðeins tveimur mínútum.
„Blackbox er virkilega spennandi vörumerki sem hefur náð miklum árangri á skömmum tíma. Gæði pizzanna eru frábær, afgreiðsluhraðinn einstakur og það, ásamt skemmtilegu andrúmslofti staðarins, fellur vel að þörfum markaðarins í dag“, segir Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda og framkvæmdastjóri Hamborgara-fabrikkunnar.
Gleðipinnar ehf. er ört vaxandi félag á markaði veitinga og afþreyingar. Félagið á og rekur Keiluhöllina í Egilshöll og Shake&Pizza og á meirihluta í Hamborgara-fabrikkunni sem starfrækir 3 veitingastaði.