Bára Halldórsdóttir, uppljóstrarinn sem tók upp ógeðfellt samtal þingmanna á Klaustri bar 20. nóvember hefur fengið aðstoð lögmanna. Auður Tinna Aðalbjarnardóttir og Ragnar Aðalsteinsson frá lögmannsstofunni Rétti munu veita Báru aðstoð í Klaustursmálinu. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Sjá einnig: Þúsundir landsmanna lýsa yfir stuðningi við Báru: „Þú ert hetjan okkar“
Bára hefur verið boðuð í skýrslutöku hjá Héraðsdómi í næstu viku vegna einkamáls sem þingmennirnir Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skoða nú að höfða gegn henni.
Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, sagði í samtali við RÚV í gær að Bára hefði verið boðuð til þess að gera henni ljóst að hugsanlega verði höfðað mál gegn henni og að hún gæti þurft að grípa til varna.